Hraunsfjarðarvatn er um 2,5 km² að stærð og 84 m djúpt, þar sem það er dýpst. Það er í um 207 m hæð yfir sjávarmáli. Þaðan rennur Vatná í Baulárvallavatn. Nýja vatnaleiðin á Snæfellsnesi gerir það að verkum að hægt er að aka nær alveg upp að vatninu á vegaslóða en síðasta spölinn þarf að fara fótgangandi (15 mín.) Slóði þessi er einungis fær fjórhjóladrifnum bílum. Hraunsfjarðarvatn er einungis með urriða sem gjarnan er vænn. Meðalþyngd fiska er 2-3 pund en algengt er að þar veiðist stærri fiskar, 5-6 pund, einkum í ljósaskiptunum. Fiskur getur legið djúpt og þá þarf að sökkva agninu. Spónn og maðkur gefa að jafnaði ágæta veiði. Í ljósaskiptunum ferðast urriðinn inn á grunnið við landið og er þá gott að nota flugu.