Það eru sennilega fáir sem leggja leið sína upp með Hvítá í Borgarfirði, alveg upp að Barnafossi, með það í huga að kasta fyrir fisk. Svæðið er aðallega áningarstaður ferðamanna sem vilja berja fossinn augum og einnig skoða Hraunfossa. En það er einmitt þar sem ferskvatnið sitrar niður hraunvegginn og sameinast jökulvatninu sem vænir laxar og bleikjur halda til. Fáir sem þarna koma gera sér grein fyrir þessu. Laxinn mætir um mitt sumar en mesti krafturinn í bleikjugöngunum er á haustin og teygja þær sig jafnvel fram í nóvember, desember. Ásókn í veiðileyfi hefur aukist og svæðin eiga sýna árlegu fastagesti.