Þetta vatn er á Arnarvatnsheiði og er töluvert vestan við Arnarvatn stóra. Það er í 455 m hæð yfir sjávarmáli og áætlað flatarmál þess er um 0.23 km². Þetta er gott veiðivatn og er uppistaðan í veiðinni allgóð bleikja. Þarna var stunduð talsverð netaveiði hér áður fyrr, en henni hefur lítið verið sinnt hin síðari ár. Þar sem aðgengi að vatninu er erfitt, eða um þriggja tíma gangur frá veginum að norðan, hefur aðsókn ekki verið mikil. Jeppafær slóði liggur þó sunnanmegin, frá Úlfsvatni að Ketilvatni, og hefur það því miður tíðkast að menn stelist í vatnið eftir þeirri leið. Blöndukíll heitir lækur sem fellur úr Ketilvatni og er ein af upptökum Vesturár í Miðfirði. Þótt ekki fari miklum sögum af aflabrögðum í læknum, ættu menn sem leggja leið sína að vatninu að kíkja niður með honum.