Til Ketuvatna teljast Skálavatn, Selvatn, Urðarselstjörn og Kelduvötn sem eru tvö talsins. Í öllum þessum vötnum er urriði og bleikja, misgóður fiskur eins og gengur og gerist. Veiða má allan sólarhringinn í vötnunum og mega veiðimenn fara á milli vatnanna að vild. Það fer eftir tíðarfari hvenær veiði getur hafist og er það háð því hvenær frost fer úr jörðu og vegarslóðar þola umferð. Oft er þetta í kringum 1. júní, en einungis er fært jeppum að vötnunum. Þetta er vinsælt vatnasvæði, mjög fjölskylduvænt og sama fólkið kemur til veiða ár eftir ár.