Langavatn er í vatnaklasa Út-Fella og tiheyrir jörðunum Hafrafelli, Krossi og Stafafelli. Það er aðeins í 10 km fjarlægð frá Egilsstöðum. Vatnið er í 90 m hæð yfir sjó og talið vera um 0.57 km² að flatarmáli. Mesta dypi þess er 15 m. Aðrennsli er frá Reyðarvatni og Leirtjörn og frá Langavatni rennur lækur til Urriðavatns. Bæði urriði og bleikja er í vatninu. Á sínum tíma var mikil netaveiði stunduð í vatninu og þegar henni var hætt hrakaði veiðinni í vatninu svo um munaði. Var þá farið að sleppa urriðaseiðum sem veidd voru í gildrur í lækjum í nágrenni vatnsins. Það virðist hafa skilað góðum árangri. Allnokkur stangveiði hefur verið stunduð í Langavatni og þá helst með spóni og maðki. Mesta veiðin er fyrripart sumars og svo aftur seinnipartinn. Algeng stærð á stangveiddum fiski er eitt til tvö pund en fengist hafa upp í fjögurra punda fiskar í Langavatni. Ágætur vegur er að vatninu og beygt inn á hann skömmu áður en komið er að Staffelli.