Laufdalsvatn er eitt þeirra vatna sem telst til Framvatna og liggur rétt norð-austan Laufdals, norðan Löðmundar. Það er 0,9 km2 að flatarmáli og liggur í um 540 m hæð yfir sjávarmáli. Laufdalsvatn sést ekki frá Dyngjuleið og er nokkur gangur að því þaðan sem slóðanum lýkur. Vatnið, rétt eins og önnur á svæðinu, var nytjað í nokkurn tíma eftir að fiski var sleppt í það, en nú hefur bleikjan orðið helst til liðmörg og því hefur stofninn liðið verulegan skort hin síðari ár.