Laxá í Aðaldal er ekki bara mjög góð laxveiðiá, heldur geymir hún einn sterkasta urriðastofn landsins. Á hverju ári veiðast nokkur þúsund urriðar í Laxá neðan virkjunnar og veiðin á bestu svæðunum er á milli 400-800 urriðar á sumri. Meðalstærðin er á milli 2 og 3 pund og töluvert veiðist af urriðum á bilinu 4-6 pund. Frábær þurrfluguveiði er á þessum svæðum í réttu veðri, en púpuveiði með tökuvara er samt algengust. Einnig er töluvert af veiðimönnum sem kjósa helst að veiða með straumflugum á þessum svæðum. Upplagt er fyrir stóra og litla hópa að bóka nokkra daga í Aðaldalnum og prófa þessi frábæru svæði, þar sem hægt er að fara frá einu svæði yfir á það næsta, yfir nokkra daga tímabil.
Hraun er viðfeðmt urriðasvæði í Laxá í Aðaldal, austan við ána á móti Staðartorfu, Múlatorfu og Syðra-Fjalli. Mjög fjölbreytt með mikilli náttúrufegurð og hreint frábært þurrflugusvæði þegar veður er hagstætt.