Ljósalandsvatn er á mörkum Vopnafjarðarhrepps og Skeggjastaðahrepps. Það er austan þjóðvegarins yfir Sandvíkurheiði og liggur í 230 m hæð yfir sjó. Vatnið er um 0,41 km² að flatarmáli og frekar grunnt. Frá þjóðveginum liggur vegur, fær öllum bílum, að Ljósalandsvatni. Samkvæmt gömlum upplýsingum á NAT-ferðavísi, er mikið af smáfiski í vatninu og mikil þörf á grisjun. Nú er staðan að vísu sú að í vatninu er jafnvænsti fiskurinn sem finnst í vötnum á Sandvíkurheiði. Hvert sumar veiðast þar 5 – 7 punda fiskar, bæði urriðar og bleikjur. Stofninn virðist því hafa braggast sl. tvo áratugi, þökk sé netaveiði.