Lónsá er lítil veiðiperla í landi Ytra Lóns á Langanesi, stutt frá Þórshöfn. Lónsá hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir góða sjóbleikjuveiði en bæði sjóbirtingur og staðbundin urriði hefur aukist mikið síðustu ár. Á fyrri helmingi tímabilsins, í apríl og maí, er aðallega veiði á ósasvæðinu og í Sauðaneslóni. Í maí og júni getur verið hreint ævintýraleg veiði á bleikju og sjóbirtingi sem lónir á ósasvæðinu í æti. Stærstu bleikjurnar byrja að ganga upp ánna í byrjun júní en frá miðjum júní og út júlí er alla jafna besti tíminn í ánni til að veiða bleikju. Eftir miðjan júlí fer urriðaveiði einnig að aukast. Á haustin má merkja smáar sjóbirtings- og laxgöngur en haustveiðin hefur í raun og veru ekki verið nógu vel rannsökuð fram að þessu.