Veiða má í Selvatni, Rangatjörnum, Álftavatni, Skjaldbreiðarvatni, Heytjörn og Urðartjörn
Skjaldbreiðarvatn
Skjaldbreiðarvatn er einungis 500 metra frá Skagavegi, rétt norðan við bæjarstæði á Mallandi. Enginn veiðislóði liggur að vatninu, en bæði er hægt að ganga yfir hæðardrag frá Skagavegi og frá bílastæðinu við Urðartjörn, en það er ca. 1,3 km ganga. Skjaldbreiðarvatn er 22,1 ha að flatarmáli og er í 22 metra hæð yfir sjávarmáli. Í vatnið rennur Stekkjarlækur úr Urðartjörn og úr vatninu rennur Skjaldbreiðarlækur yfir í Bæjarvatn á Neðra-Nesi. Í vatninu eru bæði bleikja og urriði og getur fiskurinn verið allt að 4 pund að stærð. Áhugasömum er bent á að ganga upp með Stekkjarlæk, en hann hverfur undir urðir, sem kallast Urðarlækjarfossar og birtst aftur ca. 300 metrum ofar, þá sem Urðarlækur upp að Urðartjörn.
Urðartjörn
Urðartjörn er fyrsta veiðivatnið sem komið er að, þegar veiðislóðinn frá Mallandi er ekinn ca. 2,1 km. Slóði er frá veiðiveginum niður að Urðartjörn að austanverðu. Urðartjörn er 6,83 hektarar að flatarmáli og stendur í 69 metra hæð yfir sjávarmáli. Í vatninu er hvort tveggja urriði og bleikja, einnig borgar sig að prófa lækina næst vatninu.
Heytjörn
Heytjörn er einungis 245 metrum austan við Urðartjörn. Ganga má að Heytjörn upp með Utangægi frá Urðartjörn, en einnig er hægt að leggja bílnum við veiðiveginn og er þá ca. 700 metra gangur að vatninu. Heytjörn er 4,22 hetkarar að flatarmáli og stendur í 73 metra hæð yfir sjávarmáli. Í Heytjörn rennur Heylækur úr Urðarselstjörn í Ketulandi og úr vatninu rennur Utangægir um 330 metra yfir í Urðartjörn. Hér borgar sig að veiða einnig Heylækinn en þar leynist oft vænn fiskur.
Selvatn
Selvatn er á austanverðri Skagaheiði nálægt Rangatjörnum og Álftavatni. Þannig er að Malland deilir Selvatni með Ketu og á Malland land að norðurhluta þess, landamerki jarðanna eru í gegnum Mjóasund, þar sem vatnið er þrengst frá austri til vesturs. Vatnið er 28,6 ha að flatarmáli og er í 110 metra hæð yfir sjávarmáli. Í vatninu veiðist bæði urriði og bleikja, mest um 1 – 2 pund og einstaklega sprækur. Heyrst hefur að fiskurinn fari stækkandi og tengist trúlega því að bændur hafa lagt net til að grisja vatnið. Að vatninu liggur 5 km veiðislóði frá Syðra-Mallandi.
Álftavatn
Álftavatn er ca. 1,2 km norðaustan við Selvatn. Vegslóði er að Álftavatni, en beygt er inn á vegslóðann ca. 200 metrum, áður en komið er að Selvatni. Álftavatn er 12,1 hektarar að stærð og sendur í 100 metra hæð yfir sjávarmáli. Í Álftavatn rennur Kýrlækur úr Rangatjörnum, en Skammlækur rennur úr Álftavatni og sameinast Blöndulæk úr Selvatni, aðeins 200 metrum neðar. Eftir það er áin kölluð Engjaá og rennur hún yfir í Efranesvatn í landi Efranes.
Rangatjarnir (Rangártjarnir)
Rangatjarnir eru vestustu vötnin af Mallandsvötnunum og er ca. 7,0 km akstur að tjörnunum eftir veiðiveginum frá Skagavegi. Sú syðri er 8,91 ha að flatarmáli, en sú nyrðri er 5,33 ha að stærð. Í Rangatjarnirnar renna nokkrir lækir úr hlíðunum fyrir ofan, en þau eru eftstu veiðivötn í þessu vatnakerfi.