Múlaá fellur úr Skriðuvatni í Suðurdal, inn af Skriðdalnum, og nefnist Grímsá eftir að hún og Geitdalsáin sameinast utan við Þingmúla. Í ánni er fallegur urriði, en í vatninu er hvor tveggja urriði og bleikja.
Vatnasvæðið, sem um ræðir, er Skriðuvatn að austanverðu í landi Vatnsskóga. Það er svæðið þar sem Skriðuvatn fellur í Múlaá og öll strandlengja vatnsins að austan, allt að Öxará. Einnig er veiðiréttur í austanverðri Múlaá, frá upptökum árinnar, og 250 metra niður ána allt að merktum landamerkjastólpa. Heimilt er að veiða í Öxará að austanverðu þar sem áin fellur í Skriðuvatn og upp eftir ánni. Ákjósanlegt er að stunda veiðar með flugu í lóni sem fellur úr vatninu og í Múlaá. Svæðið er hluti af Veiðikortinu.