Nykurvatn er að finna fremst á Burstafelli, stutt frá gamla þjóðveginum sem liggur um Vopnafjarðarheiði og niður í dalinn. Mælt flatarmál þess er 0,5 km², það er talið nokkuð djúpt og liggur 424 m yfir sjó. Frárennsli þess er Teigará, sem fellur til Hofsár. Mikið er af bleikju í vatninu, mest smábleikja sem er 300 – 500 g. Í vatninu er þó einnig ránbleikja, sem sennilega er af öðrum stofni, og getur hún orðið býsna væn. Töluvert er um þriggja til fjögurra punda fiska, sem veiðast gjarnan á stöng, en stærsta netveidda bleikja úr vatninu var 8 pund. Bleikjan úr vatninu er talin mjög góður matfiskur. Aðgengi að vatninu er mjög gott og þarna getur fjölskyldufólk átt góðar stundir saman.