Jörðin Hraun er staðsett vestan Ölfusárósa í Sveitarfélaginu Ölfusi. Land “Hraunstorfunnar”, sem Hraun er hluti af, er um 2400 ha ef landhelgi jarðarinnar er talin með. Land jarðarinnar eru að mestum hluta hraun, sandur og mýrar, en ræktanlegt land er lítið. Stangveiði hefur lengi verið stunduð á Hrauni. Veiðin er oft ævintýralega góð á svæðinu, bæði er það sjóbirtingur og bleikja sem tekur agn veiðimanna. Mesta veiðivonin er rétt fyrir aðfall og meðan fellur að. Oft er betra að byrja neðst í ósnum og færa sig ofar þegar fellur meira að. Fiskurinn, sem oftast er í ósnum í æti sérstaklega í sandsíli, fylgir flóðinu upp í ána og gengur síðan niður þegar fellur aftur út.