Refsveina er frekar lítil en falleg á sem á leið sinni niður í Norðlingafljót fer í gegnum nokkur lón, þar á meðal Stóralón. Á allri þeirri leið er góð veiðivon sérstaklega þar sem áin rennur í lónin en einnig eru veiðistaðir í ánni sjálfri.
Stóralón er frekar grunnt og allt vætt í vöðlum það er 6 ha að stærð með einum litlum hólma. Þar er sérstaklega vinsælt að veiða á flugu og í lóninu er mikill og vænn fiskur bæði bleikja og urriði. Refsveina rennur úr Stóralóni áfram í litla tjörn og síðan í Norðlingafljót. Þetta er sannkallað draumasvæði fluguveiðimannsins, sem opnar á vorin þegar fært er á heiðina og lokar þegar komið er fram í september.