Sæmundará er falin perla sem rennur um Sæmundarhlíð í Skagafirði. Hún er 22 km að lengd, dragá með 172 km² vatnasvið. Áin er tveggja stanga og var ræktuð upp með góðum árangri fyrir um tveimur áratugum. Skefjalaus netaveiði í Miklavatni spillti þó veiði og hún hrundi á fáum árum niður í nánast ekki neitt. Veiðin hefur verið að koma aftur upp síðustu ár með auknum seiðasleppingum og uppkaupum á netaveiði í vatninu. Auk laxins, er talsvert af sjóbleikju og sjóbirtingi í ánni. Seld eru 2-3 daga holl og eru allar stangirnar seldar saman. Meðalveiði í ánni síðustu 10 árin er um 230 laxar.