Sandvíkurheiði er á milli Bakkaflóa og Vopnafjarðar og þar eru nokkur allgóð veiðivötn. Þau helstu eru Hólmavatn, Bakkavatn og Hundsvatn. Í Hundsvatni er urriði en í hinum bleikja. Hundsvatn er í 230 m hæð yfir sjó og er u.þ.b. 0.12 km² að stærð. Það er vestan þjóðvegarins sem liggur um Sandvíkurheiði. Austan vegar er Bakkavatn og er það einnig í 230 m hæð yfir sjó. Flatarmál þess er um 0.44 km². Í því var allvæn bleikja meðan netaveiði var stunduð en nú er sagan önnur. Aðgengi að Bakkavatni er með besta móti enda er það rétt austan við þjóðveginn. Hólmavatn er einnig í 230 m hæð yfir sjó og er áætlað um 0.65 km² að flatarmáli. Liggur það nokkuð austar á heiðinni en Bakkavatn og er þangað allnokkur gangur. Bleikjan sem er í Hólmavatni er svipuð þeirri í Bakkavatni.