Þetta er ein af vatnsmestu ám á Vestfjörðum með meðalrennsli í kringum 16 rúmm. / sek og á hún upptök sín á Ófeigsfjarðarheiði í um 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Í Selá veiðist bæði sjóbleikja og lax en heldur hefur bleikjuveiðin minnkað undanfarin ár, hver svo sem ástæðan gæti verið. Meðalveiðin er á annað hundrað bleikjur en fór uppí 600 bleikjur árið 2006 en hefur minnkað síðan. Laxaseiðum var sleppt fyrir allnokkrum árum og hefur meðalveiði á laxi verið í kringum 80 fiskar á sumri. Seiðabúskapur hefur verið mjög góður, að sögn formanns veiðifélagsins, og því hefur seiðum ekki verið sleppt í ána undanfarin ár.