Selvatn er 2 km vestan við þjóðveg 94 í Hjaltastaðaþinghá á Héraði. Það er suðaustan við Krókavatn, í 30 m hæð yfir sjávarmáli og um 0,27 km² að flatarmáli. Í því er allgóður urriði og hefur verið talsvert um 2 – 4 punda fiska. Veiðiréttur í Selvatni skiptist á milli bæjanna Bóndastaða, Dratthalastaða, Ekru og Laufáss. Ein stöng er seld fyrir landi Ekru en um 40 mínútna gangur er frá bænum að vatninu. Bóndastaðir eru í eyði og ekki eru seld leyfi fyrir landi Laufáss. Ábúendur á Dratthalastöðum hafa leyft veiði fyrir sínu landi. Fljótlegast er að komast að vatninu með því að ganga frá þjóðvegi 94, það mun vera um hálftíma gangur.