Sléttuá er aðal veiðiáin í Reyðarfirði þótt einnig sé fiskur í öðrum vatnsföllum, einkum Norðuránni. Sléttuá á sér margar upptakaár sem koma af hálendinu inn af firðinum. Norðurá kemur úr Grænavatni og átti það til að fyllast af bleikju en þar eru góðar hrygningarstöðvar. Líkt og í öðrum ám á þessu svæði fer sjóbleikjan að ganga um miðjan júlí. Vænstu fiskarnir koma fyrst og þegar kemur lengra fram á sumarið hefur bleikjan dreift sér um allar árnar og smáfiskurinn einnig mættur. Laxar eru fáséðir, en veiðast einna helst efst í ánni. Hvað Sléttuána varðar er mest veitt fyrir landi jarðarinnar Sléttu. Inn af Melshorni, þar sem árnar úr Skógdal og Þórsdal renna í Sléttuá, er oft ágæt veiði. Veiðin fór hæglega í um 500 fiska á góðum árum en eins og í nágrannaánni í Eskifirði hefur mikil malartekja spillt veiðinni, en þó ekki eins mikið.