Þetta er eitt af allgóðum veiðivötnum á Hornströndum. Það er skammt upp af víkinni og úr því rennur Staðará til sjávar. Staðarvatn er í 10 m hæð yfir sjó og er á að giska 0.44 km². Um Staðará gengur hvortveggja bleikja og sjóbirtingur upp í vatnið og eitthvað af laxi sem er þó sjaldan hluti af afla veiðimanna. Þarna er einnig að finna staðbundinn silung. Mest er veiðin í vatninu sjálfu en allnokkrir veiðistaðir eru í ánni. Landeigendur amast ekki við því þótt ferðafólk veiði sér í soðið, en það verður þó að hafa samband við fólk á staðnum og fá leyfi.