Unnið er að rannsóknum á stofnum árinnar til að byggja þá upp, og eru veiðimenn beðnir um að ganga um með gát og hlíta veiðireglum í einu og öllu. Óskað er eftir því að allur fiskur sé lengdarmældur og skráð númer slöngumerkja, sem kunna að vera við bakugga, og upplýsingarnar færðar til bókar. Veiðimenn eru beðnir um að sýna bændum tillitssemi og aka ekki um hlið eða túnslóða nema sýnt sé á korti að þar sé bílastæði.
Ánni er skipt í þrjú veiðisvæði:
Veitt er með tveimur stöngum á neðsta svæði, sem nær frá Reykjafossi að norðan og suður að brú fyrir neðan Starrastaði, þar sem malarvegur tekur við af malbikinu.
Annað svæðið er fyrir ofan brú við Starrastaði og að brú við Sölvanes sunnar í dalnum. Þar er veitt á eina stöng.
Þriðja svæðið er fyrir ofan brú við Sölvanes suður að Ýrarfellsfossi, sem er talsvert fyrir innan bæinn Gilhaga. Ekki má hinsvegar veiða fyrir landi Kornár, en sá bær er næsti bær við Sölvanes. Þarna er veitt á eina stöng.