Hér er um mjög gott veiðivatn að ræða. Það er um 1 km² að stærð og í um þriggja metra hæð ofan sjávarmáls. Í vatninu er mikið af sjógengnum fiski, s.s. sjóbleikju, sjóbirtingi og laxi. Mesta veiðin hefur oft fengist neðan við grasbala næst bænum Hanhóli. Aðalveiðisvæðið hefur jafnan verið það sem markast af bænum Miðdal og svokallaðri Selá sem rennur í vatnið suðaustanvert. Á Miðdalsodda og Geirastaðaodda er æðavarp og eru veiðimenn beðnir um að taka tillit til þess og fara ekki þar um frá maíbyrjun og til júníloka. Ekki má veiða í Ósá, sem rennur úr vatninu, og ekki nær henni en sem nemur merkjum í Grjótnesi og Vatnsnesi. Hins vegar er hægt að kaupa sérstakt veiðileyfi í Ósá.