Kaldárhöfði er syðsta veiðisvæðið í Þingvallavatni og það nyrsta í Úlfljótsvatni. Um er að ræða mjög fjölbreytt svæði sem bæði býður upp á urriða- og bleikjuveiði. Svæðið á sér langa veiðisögu og var sennilega besta urriðasvæði í Þingvallavatni fyrir tíma virkjana í Sogi. Með vaxandi veiði á urriða í vatninu verður spennandi að fylgjast með veiðinni á Kaldárhöfða á næstunni. Hluti svæðisins er í Úlfljótsvatni og er það svæði bæði þekkt fyrir stóra urriða og nóg af bleikju. Urriðaveiðin er einkum góð nyrst í vatninu og út af hólmanum en bleikjuveiðin er góð á öllu svæðinu.