Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir fallega urriða marga hverja stóra. Tjörnin hefur hingað til verið hálfgert leyndarmál nokkurra veiðimanna. Urriðinn er af Þingvallastofni og stærðin og grimmdin eftir því. Vatnið er lítið og grunnt og of má sjá straumrastir í yfirborðinu eftir boltafiska.
Svæði B í landi Villingavatns getur gefið góða veiði á urriða. Þótt veiðin geti verið góð á öllu svæðinu, eru tangarnir tveir yfirleitt bestir. Við vestari tangann er grynning sem hægt er að vaða út á; þar tekur við kantur sem fiskur liggur oft við. Þarna er bæði urriði og bleikja en þó helst urriði á vorin.