Silungasvæði Vatnsdalsár hefur í gegnum árin verið geysilega vinsælt veiðisvæði. Þar veiðast ár hvert á þriðja þúsund silungar en þarna er einnig allgóð von um laxveiði. Urriðinn í Vatnsdalsá getur verið allt upp í 5 pund og þar eru dæmi um stærri urriða. Bleikjan er smærri oft um 1 – 2 pund. Sjávarfalla gætir í Húnavatni og þar er oft besta veiðivonin á sjávarföllum. Veiðisvæðinu fylgir smááin Giljá, en í henni má fá bleikju og sjóbirting á ósasvæðiðinu og lax finnst ósjaldan ofar í ánni. Mikil saga fer af atburðum í Vatnsdal og má geta þess að landnámsmaðurinn Ingimundur gamli var veginn í deilu um veiðirétt. Til minningar um það hefur Húnvetningafélagið í Reykjavík gróðursett trjálund og nefnt eftir Þórdísi dóttur Ingimundar gamla. Veitt er 3 daga í senn, frá hádegis til hádegis. Meðalveiði er 2500 silungar á ári.