Víkurvatn er staðsett á Víkurheiði ofan við Vöðluvík, ekki langt sunnan við vegarslóðann sem liggur frá Eskifirði í Vöðluvík. Ekki mörg vötn á Íslandi eru almenningur en það á við um Víkurvatn og þar mega því allir veiða. Mikið er af urriða í vatninu og er hann með afbrigðum skemmtilegur viðureignar þrátt fyrir smæð sína. Þokkalega veiðist á allt löglegt agn og þeir sem velja að nota flugu beita oft ýmiss konar púpum. Mikið er um eins punda fiska en eins fá menn einn og einn stærri inn á milli.