Ytra-Deildarvatn er í Presthólahreppi á Melrakkasléttu austanverðri. Það er 1,3 km², fremur grunnt og í 38 m hæð yfir sjó. Í það renna Fremri-Deildará, Ölduá og ýmsir lækir. Deildará, sem er góð laxveiðiá, rennur úr því til sjávar. Í Ytra Deildarvatni er góð silungsveiði, bleikja og urriði. Lax gengur þar um á haustin til Fremri-Deildarár og er þess vegna ekki stunduð þar netaveiði. Frá þjóðvegi til Ytra-Deildarvatns eru 4,5 km og akfært að því frá tveimur stöðum, um flugvöllinn skammt austan vatnsins og frá bænum Hóli.