Skjálfandafljót á upptök sín í Vonarskarði á milli Vatnajökuls og Tungnafellsjökuls og fellur til sjávar í Skjálfanda. Talsvert gengur af sjóbleikju í Skjálfandafljót og eru silungasvæðin í ánni 4 talsins. Það þekktasta er án efa Vesturbakki Ós-Brú en á það svæði berst mikið af ferskvatni ofan af Kinnarfjöllum og eru helstu veiðistaðirnir í vatnamótum ferskvatnsánna og fljótsins. Hægt er að nefna staði eins og ármót fljótsins og Leikskálaár og einnig Bjargarhylji. Austurbakki Ós-Brú er ekki eins þekktur, en þó er oft fín veiði í Kvíslinni sem rennur saman við fljótið. Einnig er stundum fín veiði þar sem vatn kemur undan Aðaldalshrauni og rennur í Skjálfandafljót. Ótalin eru tvö silungasvæði, þau eru ofan við brú og þar er lítilsháttar laxavon. Annars vegar er austur-bakkinn; Vaðseyja og hins vegar vestur-bakkinn; Brú-Fellsendakógur.