Litlaá í Kelduhverfi er bergvatnsá, sem upprunalega átti sér eingöngu upptök í lindum sem heita Brunnar við bæinn Keldunes. Frá 1976 á hún sér einnig upptök í Skjálftavatni sem myndaðist við jarðsig í Kröflueldum. Vatnið úr Brunnum er óvenju heitt og blandast kaldara vatni úr Skjálftavatni, þannig er meðalhiti vatnsins í ánni um 12°C. Vaxtarhraði fiska í Litluá er mikill undir þessum kringumstæðum og er urriðastofn árinnar því einn sá stærsti hér á landi. Auk sjóbirtings og staðbundins urriða veiðist nokkuð magn af sjóbleikju og einnig er hægt að gera sér von um lax í Litluá. Meðalveði í sjálfri ánni eru um 880 fiskar, en öllu óvissara er með Skjálftavatn en sennilega er það að gefa um 100 fiska árlega.
Stórir fiskar í Litluá
Undanfarna daga hefur verið mjög slæmt veður við Litluá, verið kalt, hvasst og mjög mikil rigning. Þrautseigir veiðimenn frá Bandaríkjunum hafa þó veitt ágætlega og fengið bæði urriða og bleikjur.