Landeigendur selja leyfi í Andakílsá

Í haust rann út samningur Veiðifélags Andakílsár og Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) um sölu veiðileyfa, en það samstarf hefur staðið í 20 ár.
Veiðifélagið hefur í framhaldinu ákveðið að taka sjálft yfir sölu veiðileyfanna og hefur í tengslum við það samið við Kristján Guðmundsson um að sinna þeim þætti fyrir eigendur næstu 2 – 3 árin.  Samningur þessa efnis var samþykktur á fundi veiðifélagsins þann 6. nóvember sl.

Ragnhildur Helga Jónsdóttir, formaður veiðifélagsins, segir að nokkrir hafi á síðustu 2 árum sýnt því áhuga að koma að rekstri árinnar en á endanum hafi verið ákveðið að reyna fyrirkomulag það, sem rekið er í Norðurá með ágætum árangri. Samhliða breyttu sölufyrirkomulagi verður unnið að uppbyggingu vatnasvæðisins sem og að bættum húsakosti og aðstöðu veiðimanna. Á þeim 20 árum sem SVFR hefur séð um sölu veiðileyfa hefur heilmikið verið byggt upp á svæðinu og vill Ragnhildur, fyrir hönd veiðifélagsins, koma á framfæri þakklæti fyrir það starf sem þar var unnið og eins samstarfið við tengiliði liðinna ára.

Kristján sölustjóri sagðist stoltur að vera treyst fyrir verkefninu og að spennandi tímar væru fram undan við söluna og þau verkefni er lúta að uppbyggingu svæðisins. Mikill metnaður væri til staðar og vilji til að gera vel í þeim úrbótum sem stefnt er að.

Reikna má með að sala veiðileyfa í Andakílsá, vegna ársins 2023, hefjist 15. nóvember nk. og er áhugasömum bent á að setja sig í samband við Kristján í gegnum netfangið [email protected].

Kristján Guðmundsson og Ragnhildur Helga Jónsdóttir handsala nýja samninginn

Veiðar · Lesa meira

Andakilsá