Hlíðarvatn er gjöfult og vinsælt veiðivatn. Sérkenni vatnsins eru að vatnshæð breytist mikið yfir sumarið og því einnig veiðistaðir í hrauninu milli mánaða. Vatnið er rúmlega 4 km² og mesta dýptin er um 20m. Það er í um 75 m hæð yfir sjávarmáli. Í vatninu er bæði bleikja og urriði og er það mál manna að í vatninu séu í það minnsta tvö afbrigði bleikju. Fiskurinn getur orðið vænn og í vatninu hafa veiðst urriðar um og yfir 50 cm og boltableikjur þótt mest sé af fiski rétt um og yfir pundið. Ágætlega veiðist á flugu, maðk og einnig spún en þó ber að að varast festur við hraunbotninn vestan megin í vatninu. Best er að veiða í Hlíðarvatni fyrri hluta sumars en nokkuð jöfn veiði er yfir sumarið. Í vatninu eru einnig stundaðar dorgveiðar að vetri til.