Réttarvatn á Arnarvatnsheiði er á mörkum V.-Húnavatnssýslu og Mýrarsýslu, þó að mestu í þeirri fyrrnefndu. Stærð þess er 2,1 km², dýpst er það 2 m og í um 550 m hæð yfir sjó. Úr því fellur Skammá í fossi til Arnarvatns stóra. Mikill og góður fiskur er í Réttarvatni, núorðið aðallega bleikja en eitthvað af urriða. Ólíkt því sem þekkist með Arnarvatn stóra, þá er langt frá því greiðfært að Réttarvatni. Það sem þessu veldur eru vegleysur frá Arnarvatni stóra og sömuleiðis frá Borgarfirði og af Stórasandi. Menn ættu ekki að leggja í þessa ferð nema á vel útbúnum bílum, með dekkjum ekki minni en 38 tommur að stærð. Frá Arnarvatni stóra eru varla meira en 10 km að Réttarvatni, en þó tekur um klukkutíma að aka þessa leið frá skálunum.