Hraunsvatn er staðsett í mynni Vatnsdals sem liggur á milli Þverbrekkuhnjúks og Drangafjalls í Öxnadal. Það liggur hátt eða í 492 m yfir sjávarmáli og er 0.8 km² að flatarmáli. Það er í landi Hrauns og Háls í Öxnadal. Hraunsá rennur úr vatninu og liðast um 200 – 300 m áður hún hverfur ofan í hraunið sem er fyrir ofan bæinn Hraun. Mikil mergð er af smábleikju í vatninu, varla stærri en 1 pund. En þar er einnig ránbleikja, og því um tvo bleikjustofna að ræða. Ránbleikjan getur verið væn og hafa veiðst fiskar allt að 10 pundum. Sá galli er þó á að lítið virðist vera af henni og tekur hún varla annað en spóna sem kastað er langt út í djúpt vatnið. Besti tíminn í vatninu er fyrriparturinn af júlí, því það tekur lengri tíma þarna fyrir ísa að leysa og líf að kvíkna en þekkist í öðrum vötnum. Frá bænum Hálsi er 30 mínútna gangur að vatninu og virðist sem svo að þetta sé vinsæl gönguleið, jafnt fyrir veiðimenn og annað útivistarfólk.