Villingavatnsárós er eitt magnaðasta urriðasvæði Þingvallavatns. Eins og nafnið gefur til kynna á Villingavatnsá ós á svæðinu og urriðinn fer upp í ósinn í leit að fæðu. Svæðið getur gefið ótrúlega veiði og mikið er af stórum fiski. Einn af kostum svæðisins er að fiskurinn heldur þar til allt sumarið en hverfur ekki á dýpið, líkt og algengt er á öðrum svæðum við Þingvallavatn. Þetta gerir það að verkum að hægt er að veiða þessa stórkostlegu fiska á litlar púpur og þurrflugur þegar kemur fram í júní.