Ljótipollur er í nokkrum samliggjandi gígum norðaustan við Frostastaðavatn. Þrátt fyrir nafnið er gígurinn geysilega fagur og umhverfið er engu öðru líkt. Vatnið er í 570 m hæð yfir sjávarmáli og er flatarmál þess um 0.45 km². Mesta dýpi er 14 m og meðaldýpi talið vera um 8 m. Ljótipollur var lengi talið eitt besta veiðivatn Framvatna en sumum þykir það vera of dyntótt til að hljóta þann heiður. Í vatninu er einungis urriði, mest af honum er um hálft annað pund en þeir stærstu ná 5 pundum. Gígbarmarnir eru brattir, um 70-120 m háir, og best að fara varlega niður að vatni. Það er vel þess virði að skreppa í Ljótapoll og oft er veiðin mjög góð.