Af svæðum Fish Partner

Fengum senda samantekt um svæðin hjá Fish Partner:

Kaldakvísl og Tunguá, sem voru báðar mjög seinar í gang vegna kulda í vor, eru núna að gefa vel og hefur sérstaklega síðast liðin vika skilað góðri veiði. Stórar bleikjur og einnig urriðar hafa verið í aflanum og talsvert af þeirri veiði komið á þurrflugu.

Í Tungufljóti í Skaftártungu er laxinn mættur og það styttist í að sjóbirtingurinn fari að láta sjá sig. Í Jónskvísl og Grenlæk sv. 4 er birtingurinn mættur og nokkrir komnir á land.

Nokkuð hefur verið bókað á Þrastarlunarsvæðinu í Sogi og þar er talsvert af laxi, Þar reynist best að nota tvíhendu til að gera gott mót.

Á Kárastöðum hefur verið ágætis kropp í bleikjunni. Kaldárhöfði hefur gefið góða veiði Þingvallamegin, en öllu rólegra hefur verið Úlfljótsmegin. Á Efri-brú hafa veiðst nokkrar bolta bleikjur undanfarið, en þar er ekkert mok.

Í Villingavatni hefur verið dundurflott veiði og all nokkrir risa urriðar komið á land. Á sama tíma hefur Villingavatnsárós verið “on/off” annað hvort er mok eða bara alveg steindautt.

Norðlingafljót hefur verið frábært frá opnun, en smá jökulskol hefur gert mönnum erfitt fyrir síðustu daga. Það ætti þó ekki að standa lengi yfir.

Að lokum eru það Veiðifélagsvötnin. Síðast liðna vika eða svo hafa stórir urriðar verið að veiðast í Fellsendavatni og Dómadalsvatni. Mokveiði hefur verið í Blautalóni og Laxárvatni. Veiðifélagskortið er svo sannarlega góður kostur!

Fish Partner – Sindri Hlíðar Jónsson Ljósmynd/Sindri H.