Fæðu – og óðalsatferli ungra laxfiska

Hér á landi lifa þrjár tegundir íslenskra laxfiska, bleikja (Salvelinus alpinus), urriði (Salmo trutta) og lax (Salmo salar). Þær nýta sér þau fjölbreyttu búsvæði sem íslenskar ár hafa upp á að bjóða; ólíkan vatnshita, framleiðni og straumlag. Ráðast þessir umhverfisþættir einkum af aldri og gegndræpi berggrunnsins þar sem árnar renna, gróðri á vatnasviði þeirra og hvort í þær renni jökulvatn. Tegundirnar þrjár gera ólíkar kröfur til þessara umhverfisþátta. Bleikjan velur að vera á lygnum búsvæðum og þrífst best í kaldari og næringarsnauðari ám. Laxinn velur straumharðari búsvæði og er ríkjandi í hlýjustu og frjósömustu ánum. Urriði á það svo til að nýta sér búsvæði sem liggja á milli hinna tegundanna tveggja hvað varðar þessa umhverfisþætti. Lítið hefur verið fengist við að kanna hvernig atferli þessara fiska tengist búsvæðanotkun þeirra eða útbreiðslu hérlendis. 

Seiði laxfiska sýna mikinn einstaklings-, stofna- og tegundabreytileika í atferli við fæðunám og varnir óðala. Í lygnu vatni þurfa fiskar að hafa fyrir því að leita að fæðu, því lítið er af fæðu sem er á reki. Hins vegar, þá geta fiskar í miklum straumi sparað sér orku með því að halda kyrru fyrir og nýtt sér þá fæðu sem berst með straumnum. Seiði laxfiska helga sér oft óðul til að tryggja sér aðgang að nægilegri fæðu. Þau verja þau með því að ráðast á aðra laxfiska, oft í útjaðri svæðisins. Mikil orka fer í að verja stór óðul, því er talið að þegar fæðuframboð er drjúgt láti seiði sér nægja smærri óðul sem auðveldara er að verja. Því ræðst af því sem vitað er um búsvæðanotkun laxfiska að af íslensku tegundunum þremur hreyfi bleikja sig mest við fæðuleit og verji stærri óðul en bæði urriði og lax. Stærri fiskar eru taldir þurfa stærri óðul til að tryggja sér nægja fæðu. Einnig verja fiskar minni óðul þar sem samkeppni er meiri vegna aukinnar vinnu við varnir þeirra. 

Rannsókn, gerð hérlendis, sýndi að bleikja hreyfir sig meira við fæðuleit (27% leitartímans) en bæði urriði (13%) og lax (12%). Eru þessar niðurstöður í samræmi við það að hreyfanleiki við fæðuleit er talinn minnka með auknum straumhraða. Bleikja nýtir sér lygnasta vatnið og laxinn mesta strauminn. Því meira sem straumhraði eykst frá stöðuvötnum til straumvatna og frá lygnari til straumharðari búsvæða í ám, dregur úr hreyfanleika seiða laxfiska við fæðuleit.  

Í annarri rannsókn sýndu Bleikja og urriði óðalsatferli sem er að mestu í samræmi við búsvæðanotkun tegundanna og hugmyndir manna um áhrif vistfræðilegra þátta á óðalstærð. Bleikja er hreyfanlegri við fæðunám en urriði og helgar sér því stærra svæði. Þennan mun í óðalsstærð má ef til vill útskýra með því að bleikja er almennt aðlöguð að lægri straumhraða og næringarsnauðara umhverfi en urriði. Auðið fæðuframboð gerir það þó að verkum að óðul dragast saman.

Stærri fiskar helguðu sér stærri óðul, sem er í samræmi við margar fyrri rannsóknir. Ef óðul stækka í takt við það sem einstaklingar í hverjum árgangi vaxa, eða fæðuframboð dregst saman, getur það leitt til náttúrulegrar grisjunnar í villtum stofnum, ef keppt er um takmarkað rými og fæðu. Við mikla mettun búsvæða verja bleikjur ekki óðul sín á skilvirkan hátt og deila þeim með öðrum einstaklingum, þá oftast af sömu tegund. 

Stefán Ó.Steingrímsson, Tunney T.D. & Guðmundur S. Gunnarsson “Fæðu- og óðalsatferli ungra laxfiska í íslenskum ám” Náttúrufræðingurinn 85. árg. 1.-2. hefti 2015, Ísafoldarprentsmiðja ehf, bls. 28 – 33.