Metfjöldi genginn í gegnum teljarann

„Annað árið í röð hélt fjölskyldan til veiða í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi. Átti nú að jafna metin frá í fyrra þegar laxinn var mikið að stríða okkur og duglegur við að spýta útúr sér flugunni,“ sagði Halldór Jörgensen sem var að koma úr Ísafjarðardjúpi.

Katrín með maríulaxinn

Dorothea Halldórsdóttir með maríulaxinn

„Ekki minnkaði spennan þegar ljóst var að met fjöldi laxa hafi farið í gegnum teljarann daginn sem veiðar áttu að hefjast. Sá fyrsti tók fljótlega í dagmálafljóti, sama veiðistað og sá síðasti tók í fyrra, en sýndi enn og aftur hæfileika til að losa sig. Var nú farið yfir alla hnúta og gerð áætlun um að landa þeim næsta sem heppnaðist seint á fyrstu vakt á sama veiðistað. Fallegur 62 cm hængur sem var splunkunýr og tók white wing. Skriðufljótið hafði verið rólegt en á annari vakt tók falleg 61cm hrygna green butt flugu hjá Katrínu Guðmundsdóttur og fyrsti maríulaxinn kominn. Það var búið að bíða lengi eftir þessum þannig að fögnuðurinn var til samræmis. Á þriðju vakt kom svo 63 cm og rúmlega 6 punda hængur sem tók green butt og var ansi fjörugur og lét hafa vel fyrir sér. Á síðustu vakt var það svo dagmálafljótið þar sem annar maríulaxinn kom á land. Dorothea Halldórsdóttir hóf vaktina og í þriðja kasti tekur hann blue charm flugu Dorotheu. Sá ætlaði ekkert að gefa sig og barðist vel við veiðikonuna sem leiftraði af spennu og fagnaði mikið þegar hængurinn var loksins kominn á land. 

Veiði hafði farið hægt af stað í Laugardalsánni þetta sumarið en þarna var greinilega allt að fara á ferð með aukinni göngu fiska. Reyndar þarf lítið annað en að njóta fallegrar náttúru og samverustundar í Djúpinu til að langa aftur að ári,“ sagði Halldór í lokin.

Mynd: Hópurinn klár á fyrstu vakt. Frá vinstri Katrín Guðmundsdóttir, Isabella Halldórsdóttir, Halldór J. Jörgensson, Ragnar Jónsson, Dóra Guðmundsdóttir, Dorothea Halldórsdóttir og Þorsteinn Eyfjörð.

Veiðar · Lesa meira

Laugardalsá