Þeim sem þykir fátt skemmtilegra en að veiða sjóbleikju sækja oft Eyjafjörðinn heim en um hann renna allmargar góðar sjóbleikjuár. Dugar þar að nefna Eyjafjarðará, Fjarðará (Ólafsfjarðará), Hörgá og Svarfaðardalsá. Eyjafjarðará var sú þeirra sem fékk lengi mesta athygli, en nú hefur dregið úr veiði vegna ástands sjóbleikjustofnsins og í raun í öllum ánum. Nú er sóknin í Eyjafjarðará nánast eingöngu bundin við eitt svæði, það fimmta. Aftur á móti, hefur sjóbleikja í Fjarðará, Hörgá og Svarfaðardalsá verið að fást víða í ánum. Sú staðreynd og hærri dagskvóti eykur þar sóknina. Þetta sumar hafa veðurfarslegar aðstæður gert það að verkum að Hörgá og Svarfaðardalsá, sem eiga það til að jökullitast, hafa verið veiðilegar dag eftir dag.
Sú á sem gefið hefur mesta sumarveiði hingað til, miðað við skráningu, er Svarfaðardalsá. Hún er dragá, frekar köld og oft jökullituð á sumrin. Veiðisvæðið er um 35 km langt, skipt í 5 svæði og eru tvær stangir leyfðar á hverju þeirra. Sjóbleikjugöngur ná oftast hámarki í lok júlí og fyrstu tvær vikurnar af ágúst. Það getur svo sannarlega verið skemmtilegt að ganga um bakka Svarfaðardalsár eins og samantektin hér að neðan greinir frá.
“Átti heilan dag í Svarfaðardalsá þann 9. ágúst, 3 og 5 svæði um morguninn og svo svæði 5 seinni partinn. Var mættur rétt eftir 7:00 og hóf veiðar ofarlega á svæði 5, neðan við bæina Göngustaði og Göngustaðakot. Þar rennur áin í kvíslum, veiðistaðirnir eru litlir og viðkvæmir sem gerir þetta allt svo heillandi. Tókst að setja í 5 fiska og náði 4 á land. Það kom nokkuð á óvart að einn þeirra reyndist sjóbirtingur sem veiðist sjaldan svona ofarlega í ánni.
Frá efri hluta 5 svæðis lá leiðin svo alla leið niður á neðri hluta svæðis 3. Neðan við bæinn Grund eru nokkrir fínir staðir þar sem oft má finna göngufisk en nú var raunin önnur. Færði mig því ofar og byrjaði á því að kíkja á breiðu neðan við golfvöllinn. Varð ekki var þar en fékk tvær bleikjur nokkuð ofar á fallegum veiðistöðum nær við bóndbæinn Bakka. Þar sem það var frekar lítið líf á neðri hluta svæðis 3 var best að halda ofar á staði ofan við Bakka og upp að ármótum Svarfaðardalsár og Skíðadalsár. Best er að nálgast þá staði með því að fylgja vegi niður Tungurnar og leggja bíl sínum rétt ofan við ármótin . Þaðan er stutt vegalengd niður á efri hluta svæðis 3 þar sem finna má marga fína veiðistaði. Þarna gerast oft ævintýri og á ferð minni náði ég 5 sjóbleikjum og var ein þeirra 55 cm.
Á seinni vaktinni hófst veiðin neðan við Höfða, félagsheimili þeirra Svarfdælinga sem stendur við ána um mitt 5 svæði. Þaðan var ákveðið að fara í gönguferð niður með ánni og veiða alla þá staði sem á leið minni yrðu. Lítið var um fisk fyrr en komið var á veiðistaði neðan við Mela og að Hreiðarstöðum. Á þeim kafla komu 6 fiskar á land, 5 bleikjur og einn urriði. Oft er það nú þannig að maður missir þá stærstu og það átti svo sannarlega við þarna. Setti í stóra bleikja sem lét ekki af stjórn og sleit hjá mér. En svakalega var þetta nú gaman. Nú var smá tími aflögu til að skoða staði rétt fyrir neðan brú en hafði ekki árangur sem erfiði”
Að mestu var fiskurinn að taka kúlupúpur, helst PT afbrigði, Copper John, Rainbow Warrior og San Juan blóðorma. Einnig fengust nokkrar á hina öflugu Stirðu og var sú rauða sterkust. Allar þessar flugur fást hér á Veiðiheimum.
Veiðileyfi í Svarfaðardalsá: veiditorg.is
Ljósmyndir/Veiðiheimar Kort/veiditorg.is
Heimild: Högni Harðarson