Fish Partner tekur við Arnarvatnsheiði

Fish Partner og Veiðifélag Arnarvatnsheiðar hafa gert með sér samning þess efnis að hið fyrrnefnda taki að sér sölu veiðileyfa á þessu margrómaða svæði, en óhætt er að segja að heiðin sé eitt besta silungsveiðisvæði á landinu.

Vötnin á Arnarvatnsheiði eru mörg og fjölbreytt eftir því, en á meðal þeirra svæða sem eru hvað vinsælust má nefna:

  • Úlfsvatn
  • Arnarvatn Litla
  • Ólafsvatn
  • Leggjabrjótstjarnir
  • Stóralón
  • Mordísarvatn
  • Refsveina
  • Veiðitjarnalækur

Til viðbótar eru ótal vötn og lækir sem halda fiski, gefa góða veiði, en eru lítið stunduð.

Þær breytingar hafa verið gerðar á svæðinu fyrir tímabilið 2024 að í Refsveinu og Stóralóni er eingöngu leyfð fluguveiði, og öllum fiski skal sleppt. Breytingarnar ná frá upptökum Refsveinu við Arnarvatn Litla til, og með, Stóralóni. Þessi ákvörðun er tekin á þeim forsendum að þarna er talinn vera mikilvægur hrygningastofn sem hæglega má þurrka upp á fyrstu vikum eftir að heiðin opnar. Á þennan hátt geta veiðimenn notið þessa að veiða fisk allt sumarið.

Auk þess að sjá alfarið um bókanir á veiðileyfum á Arnarvarnsheiði, mun Fish Partner halda utan um bókanir í húsakost veiðifélagsins við Úlfsvatn, Arnarvatn Litla ásamt Álftakrók.

Veiðileyfi og hús eru komin í vefsöluna og hægt er að bóka hér:

Þeir vita sem til þekkja að Arnarvatnsheiðin er gríðarlega fjölbreytt veiðisvæði. Til eru ótal veiðimenn sem tóku sín fyrstu köst á heiðinni, og heimsækja hana árlega enn þann dag í dag. Svæðið býður upp á alla flóruna þegar kemur að stangveiði og hentar frábærlega fyrir byrjendur í veiði, sem og lengra komna.

ATH! Þeir sem hafa verið með fasta daga í skálum og húsum, eru hvattir til að hafa samband á [email protected] sem allra fyrst.

Ljósmynd: Refsveina, þar sem hún rennur í Stóralón. Þarna má oft fá vænar bleikjur

Frétt fengin af vefsíðu Fish Partner

Arnarvatnsheiði – sunnan