Silungsveiðiár á Austurlandi

Á Austurlandi renna margar skemmtilegar veiðiár til sjávar og má segja að þarna sé paradís stangveiðimannsins. Þeir sem velja það að stunda laxveiði hafa þann kost að fara í Jöklu og hliðarár hennar eða þá í Vopnafjörðinn, þar sem tvær af bestu laxveiðiám landsins renna. En á Austurlandi eru fjölmargar silungsveiðiár þar sem aðallega veiðist bleikja, þó urriði finnist einnig víða. 

Ein af betri sjóbleikjuám landsins er Norðfjarðará í Norðfirði, stutt frá Neskaupstað. Hún á sér trygga aðdáendur og eru leyfi oftast uppseld þegar líða fer á vorið. Ekki er óalgengt að veiðin sé þetta 700 – 800 bleikjur á sumri og eru þær flestar um 1 – 2 pund. Besti tíminn er júlí og fram í ágúst. Það að efsti kafli árinnar séu friðaður hefur gefið góða raun. 

Stutt frá Norðfjarðará eru Eskifjarðará, Sléttuá í Reyðarfirði og svo Dalsá í Fáskrúðsfirði. Í öllum þessum ám er sjóbleikja, þó það megi nú segja að þær fyrst nefndu hafi verið stórlega spilltar með malartekju. Í Eskifjarðará veiðist nú aðallega í ósnum, en einnig má fá fiska á veiðistöðum inn af eyðibýlinu Eskifjarðarseli. Í Sléttuá er mest veitt fyrir landi jarðarinnar Sléttu, en einnig getur verið fín veiði inn af Melshorni þar sem árnar úr Skógdal og Þórsdal renna í Sléttuá. Besti tíminn er svipaður og í Norðfjarðará, stærstu bleikjurnar koma í júlí og þær smærri í ágúst.  

Fallegur veiðistaður í Dalsá

Dalsá í Fáskrúðsfirði er lagleg dragá og meira stunduð en Sléttuá og Eskifjarðará. Stærð bleikjunnar er þó svipuð, getur verið upp í 3-4 pund. Í Dalsá veiðist einnig eitthvað af laxi. Stutt frá Dalsá er Tungudalsá en í henni er einnig sjóbleikja. Hún hefur þann galla að breyta sér töluvert á milli ára, vegna mikilla hlaupa sem eru tíð. Þó virðast nokkrir veiðistaðir halda sér árlega og þar má fá bleikju af sömu stærð og í Dalsá. Báðar árnar er með ófiskgengum fossum og er Tungudalsá aðeins fiskgeng um 4 km.     

Í Breiðdalsá, sem er orðin vinsæl hjá hópum, er boðið upp á vorveiði og glæsilega gistiaðstöðu frá 1. maí. Veiðin fer fram á neðsta hluta árinnar, þar sem aðallega er að finna sjóbleikju en einnig einstaka sjóbirting og lax. Yfir sumartíman má svo sækja inn á dal, ofan við fossinn Beljanda, og kasta fyrir staðbundinn urriða. Hann er einnig að finna ofarlega í Norðurdalsá, sem sameinast Tinnudalsá og eru hluti af vatnakerfi Breiðdalsá. Á þessum tíma geta menn fengið gistingu í veiðihúsinu, eða þá í gistigámum rétt við veiðihúsið með afnot af baðherbergi. 

Fjarðará í Borgarfirði, þarna leynast fallegar bleikjur

Þá ber næst að nefna þær fjölmörgu ár sem bera nafnið Fjarðará. Ein er í Borgarfirði Eystri, önnur í Loðmundarfirði og enn önnur í Seyðisfirði. Sú fyrst nefnda, er ásamt hliðará sinni Þverá, drjúg sjóbleikjuveiðiá. Þær eiga vaxandi vinsældum að fagna, en eru kannski heldur út úr alfara leið. Til að gera langa sögu stutta, þá er sú Fjarðará sem rennur um Loðmundarfjörð einungis nýtt af landeigendum. Vinsælust er Fjarðará í Seyðisfirði. Hún að upptök sín á Fjarðarheiði og rennur neðsti hluti hennar í gegnum kaupstaðinn. Í henni er góð sjóbleikja, talsvert af 2-3 punda fiskum en þó mest í kringum pundið. Hún hentar vel fyrir fluguveiði, enda með fjölbreytt úrval veiðistaða. Besta veiðin er talin vera síðsumars. 

Ekki ýkja langt frá Egilsstöðum eru veiðisvæði Selfljóts og Gilsár. Þetta er vinsælt veiðisvæði, enda veiðistaðir fjölbreyttir og ekki skemmir að Dyrfjöll og Beinageitarfjall tróna yfir þeim. Á miðsvæðum árinnar má finna hvort tveggja bleikju og urriða, ágætan fisk en stærstu bleikjurnar er þó að finna í Gilsá og einnig í Bjarglandsá. Þegar líður á sumarið má þar einnig fá lax. Smá keyrsla er að ósasvæði árinnar en þar er boðið upp á vorveiði á bleikju og sjóbirtingi. Þó aðeins um helgar og er veiðitíminn sveigjanlegur í 12 klst á sólarhring. Annars þá opna svæðin 20. júní og í byrjun júlí. Veiðisvæði sem hefur margt uppá að bjóða fyrir allar gerðir veiðimanna. 

Veiðisvæði Selfljóts eru fjölbreytt og spennandi, mynd af 5 svæði

Fögruhlíðarós er annað rómað sjóbleikjusvæði þar sem veiða má inn í nóttina. Þar hafa veiðimenn upplifað hreint magnaða veiði með flugustöng að vopni. Sjóbirtingur sveimar einnig um svæðið í einhverju mæli og einn og einn lax. Ofar í ánni eru ágætis urriða mið.  

Að lokum ber að nefna nokkrar ár þar sem urriði veiðist í meira mæli eða eingöngu. Múlaá fellur úr Skriðuvatni í Suðurdal. Í vatninu er hvort tveggja bleikja og urriði, en einungis urriði í ánni. Veiði er leyfð efst í Múlaá, þar sem hún verður til úr hálfgerðu lóni sem fellur úr Skriðuvatni. Þarna veiðast vænir urriðar. Svæðið er hluti af Veiðikortinu og stutt frá þjóðvegi eitt. Kelduá er dragá í Fljótsdalshreppi og á upptök sín í Kelduárvatni. Í henni er mikið af urriða, fremur smáum en gaman að kljást við hann á léttan búnað. Þarna var á sínum tíma góð bleikjuveiði, en hún er að mestu leyti horfin. Í Kelduá eru nokkrir álitlegir veiðistaðir og er sá vænlegasti, Hrakhamarshylur, neðan við bæinn Víðivelli. Aðeins 12 km frá Egilsstöðum er Rangá sem kemur úr Sandvatni og rennur í Lagarfljót. Eins og í Kelduá, er það aðallega smár urriði sem veiðist og þá aðallega í uppánni. Á árum áður var mikil bleikjuveiði í ánni og þá sérstaklega þar sem hún rennur í Lagarfljót. Nú er sagan önnur, en veiðin spilltist við virkjunarframkvæmdir að Kárahnjúkum. Rangá er fiskgeng upp að fossi, en þar eru veiðistaðir í gili sem erfitt er að nálgast. En neðar eru margir fallegir hyljir og er þekktasti veiðistaðurinn, Árkrókur, í beygju þar sem Merkjalækur rennu í ána.