Besta aðferðin?

Talið er að menn fari fyrst að stunda andstreymisveiði hérlendis, með púpu og tökuvara, um 1988 – 1989. Helst voru þetta veiðimenn sem höfðu verið við veiðar á erlendri grundu og fluttu þekkinguna með sér til landsins. Sjálfur lærði ég að veiða með aðferðinni í Colorado, þar sem ég var við nám, árin 1996 – 1997. Það er svo ekki fyrr en um 2000 sem andstreymisveiði verður nokkuð algeng hér á landi og á árunum 2004 – 2005 er hún orðin mest notaða aðferðin í silungsveiði. 

En hvað var það sem gerði hana svona vinsæla: STÆRRI FISKAR! 

Búnaður

Þegar veitt er andstreymis fylgir því notkun á léttari græjum en í straumflugu- og votfluguveiði. Ekki þarf löng köst til að koma flugunni til fisksins, því oftast er verið að egna fyrir fisk sem liggur stutt frá veiðimanninum. Mikilvægast er þó að velja rétta lengt taums og nota tökuvara. 

Stangir: 8 – 9’ henta best 

Línur: # 4 – 6 

Taumur: 5x upp í 0x sem er slitstyrkur 4 – 10 pund

Tökuvarar: til eru fjölmargar tegundir, sjálfur nota ég mest leir (“Do”) og sporöskjulaga tökuvara frá Orvis (sjá að neðan)  

Hvernig maður ber sig að 

Menn verða að meta aðstæður, t.d. dýpt, rennsli og einnig lofthita. Ef sækja þarf fiskinn djúpt er best að nota þyngdar púpur og taumalengd skal miðast við dýpt veiðistaðarins. Það þýðir t.d. lítið að vera með 3-4 metra taum, þar sem fiskur liggur í talsverðum straumi á 1.5 metra dýpi. Fiskur á það þó til að sækja flugur sem eru nær yfirborði en oftast er hann frekar latur við það. Oft dugar að nota einn tökuvara, en þar sem straumur er mikill og öldur geta myndast er gott að vera með tvo. Sjálfur geri ég það, sérstaklega við veiðar í Laxá í Þingeyjarsýslu, en þar finnst mér ósjaldan gott að bæta við leir (“Do”) sem sekkur síður við notkun þungra púpa. Margir velja að nota tvær púpur, veiða á legg, oft þá með eina þunga sem notuð er til að sökkva hinni. Vinsælt er einnig að hafa þurrflugu sem efri flugu og verður hún þá eins konar tökuvari. 

Uppsetningin við notkun á tveimur flugum er misjöfn, sumir nota hringi (“jig”), aðrir búa til lykkjur og enn aðrir binda sérstaka hnúta til að skeyta þeim saman. Það að nota lykkjur, tel ég sjálfur gera flugurnar mjög líflegar í vatninu og hefur reynst mér vel. Passa þarf að tökuvarinn fari ávallt á undan flugunni, dragi hana bókstaflega. Ef tökuvarinn er kominn á undan, er flugan ekki að veiða. Svo er að muna að bregðast við um leið og tökuvarinn hreyfist eða fer í kaf. 

Andstreymisveiði vs. aðrar aðferðir 

Eins og áður hefur komið fram er andstreymisveiði á silungi vinsæl aðferð og mest notuð. Öfugt við straumflugu-, votflugu- og þurrfluguveiði er hægt að ná til fisks sem liggur djúpt og oft er þetta stór fiskur sem síður hreyfir sig eftir öðru agni. En hvernig er hún samanborin við maðkaveiði? Mitt fyrsta svar væri að segja að hún væri skæðari og ef ekki er farið varlega er auðveldlega hægt að þurrka upp heilu stofnana í viðkvæmum silungsám. Hið góða við hana er þó að menn eiga þann kost að sleppa fiski sem oft er lítið skaddaður. Það er oftast ekki möguleiki í maðkaveiði. 

Hér að neðan koma skýrt fram þær breytingar sem urðu við aukna notkun aðferðarinnar. Enginn afli var skráður á þurrflugu, votflugu eða púpur án kúlu. Talsvert hlutfall aflans var eingöngu skráður á flugu en frekari tegund þeirra ekki tekin fram.   

Fjöldi bleikja 2 kg og stærri sem veiddust á flugu á 5 sv. í Eyjafjarðará 2002-2006.   

 Flugutegund20022003200420052006
Fluga 36%33%34%42%9%
Straumfluga10%16%5%12%17%
Þurrfluga0%0%0%0%0%
Votfluga0%0%0%0%0%
Púpa0%0%0%0%0%
Kúlupúpa57%57%61%46%74%
Ónefnt0%0%0%0%0%
        Samtals3049565123