Cleveland-Skransalan

Okkur finnst eðlilegt að flest sem við kaupum fáist í stykkjatali og að hægt sé að selja nánast hvað sem er. Hér á eftir fer stuttur kafli úr bókinni Silungsveiði í Ameríku þar sem höfundurinn, Richard Brautigan, deilir á markaðshyggju með aðferðum fjarstæðustefnunnar. Þar er veiðiá á skransölu og er áin sjálf, umhverfi hennar og dýralíf á svæðinu allt til sölu í einingum. Þannig hlutgerir höfundur náttúruna.

En hvers virði er náttúran okkur? Erum við meðvituð um að víðsvegar, einnig hér á landi, er hættan sú að náttúran verði eða sé seld, jafnvel í einingum? Er það ekki á okkar ábyrgð að vernda hana svo að allir fái að njóta hennar um ókomna framtíð? Hvað með dýrmætu veiðiárnar okkar? Færi það ekki fyrir brjóstið á okkur stangveiðimönnum ef við sæjum okkar uppáhalds-veiðiá auglýsta til sölu, jafnvel í bútum?

En gefum Brautigan orðið og kynnumst ádeilu hans á markaðshyggjuna:

Hinumegin við bensínstöðina var Cleveland-Skransalan. Ég gekk þangað til að athuga með notuðu silungsána. Á framhlið Cleveland-Skransölunnar er mjög langur útstillingargluggi fullur af skiltum og vörum. 

   Í glugganum var skilti sem auglýsti vél til að setja þvottamerki á föt, til sölu á 65 dali. Annað skilti auglýsti nýja og notaða tveggja og þriggja tonna byggingarkrana. Á enn einu skilti stóð: 

Fjölskyldugjafamiðstöðin

Hugmyndir að gjöfum 

Fyrir alla fjölskylduna  

Þarna var líka stórt skilti sem á stóð: 

NOTUÐ SILUNGSÁ TIL SÖLU.

SJÓN ER SÖGU RÍKARI.

Ég gekk innfyrir og kíkti á  á nokkrar skipsluktir sem voru til sölu næst dyrunum. Síðan kom sölumaður upp að mér og sagði viðkunnanlegum rómi: “Get ég aðstoðað?” 

   “Já,” sagði ég. “Ég er að forvitnast um þessa silungsá sem þið hafið til sölu. Getur þú sagt mér eitthvað um hana. Hvernig seljið þið hana?” 

   “Við seljum hana í fetavís. Þú getur keypt eins lítið og þú vilt eða þú getur keypt allt sem við eigum eftir. Í morgun kom hingað maður og keypti 563 fet. Hann ætlar að gefa bróðurdóttur sinni hana í afmælisgjöf,” sagði sölumaðurinn. 

   “Við seljum fossana auðvitað sér og trén og fuglana, blóm, grös og byrkninga seljum við líka aukalega. Skordýrin eru ókeypis, kaupi menn meira en tíu fet af ánni.” 

   “Á hvað seljið þið ána?” spurði ég 

   “Sex og hálfan dal fetið,” sagði hann. “Það er fyrir fyrstu hundruð fetin. Eftir það eru það fimm dalir á fetið.” 

   “Hvað kosta fuglarnir?” spurði ég. 

   “Þrjátíu og fimm sent stykkið,” sagði hann. “En auðvitað eru þeir notaðir. Við getum ekki ábyrgst neitt.” 

   “Hvað er áin breið?” spurði ég. “Þú sagðir að þið selduð hana eftir lengd, eða hvað?” 

   “Já,” sagði hann. “Við seljum hana eftir lengd. Breiddin er á bilinu fimm til ellefu fet. Þú þarft ekki að borga neitt aukalega vegna breiddarinnar. Þetta er ekki vatnsmikil á, en hún er mjög falleg.” 

   “Hvernig dýr eruð þið með?” spurði ég. 

   “Við eigum bara þrjú dádýr eftir,” sagði hann. 

   “Ó….hvað um blóm?” 

   “Heilu vendina,” sagði hann

   “Er áin tær?” spurði ég

“Herra minn,” sagði sölumaðurinn. “Ég vil ekki að þú haldir að við myndum nokkru sinni selja hérna grugguga silungsá. Við göngum ávallt úr skugga um að þær séu kristaltærar áður en við jafnvel hugsum til þess að flytja þær.” 

   “Hvaðan er þessi á?” spurði ég. 

   “Frá Colorado,” sagði hann. “Við fluttum hana af einstakri varfærni. Enn höfum við ekki skemmt silungsá. Við meðhöndlum þær allar einsog þær væru postulín.” 

   “Sennilega er alltaf verið að spyrja þig um þetta, en hvernig er veiðin í ánni?” spurði ég. 

   “Mjög góð,” sagði hann “Aðallega venjulegir moldarurriðar, en svo eru nokkrir regnbogasilungar.”

   “Hvað kosta silungarnir?” spurði ég. 

   “Þeir fylgja ánni,” sagði hann. “Auðvitar spilar heppnin þar inn í. Þú veist aldrei hvað þú átt eftir að krækja í marga eða hvað þeir verða stórir. En þarna er góð veiði, það er jafnvel hægt að segja að hún sé frábær. Bæði á maðk og flugu,” sagði hann brosandi. 

   “Hvar er áin geymd?” spurði ég. “Ég vildi gjarnan líta á hana.” 

   “Hún er hérna bakatil,” sagði hann. 

Richard Brautigan; Silungsveiði í Ameríku, “Cleveland Skransalan”. Þýðing: Gyrðir Elíasson. Prentsmiðjan Oddi HF, Hörpuútgáfan 1992, bls. 162 – 165.