Góð afmælisgjöf!

Varla er hægt að hugsa sér betri afmælisgjöf en veiðiferð í fallega sjóbleikjuá. “Ég varð áttræður þann 3 janúar og fékk að gjöf dag í Svarfaðardalsá. Þetta var kærkomin afmælisgjöf”, segir Guðmundur Ármann myndlistarmaður á Akureyri. Það voru þeir félagar Högni Harðarson og Erlendur St. Friðriksson sem færðu honum þessa góðu gjöf og fór sá fyrrnefndi með honum. Saman veiddu þeir á 3 svæði og neðri hluta 5 svæðis fyrripartinn og héldu svo ofar á 5 svæði seinnipart dags. 

Mikið vatn var búið að vera í ánum í Eyjafirði þetta sumar en nú var loksins komið gott sumarvatn og veðrið var eins og best verður á kosið; milt, hægur andvari og ofurlítil hafgola eftir hádegi. Töluvert líf var á báðum svæðum, flestar bleikjurnar nýgengnar en nokkrar þó aðeins legnar.     

Falleg sjóbleikja sem kom á 5 svæði

Saman lönduðu þeir félagar 22 sjóbleikjum, slepptu flestum þeirra en höfðu þrjár með sér heim í soðið. Alls komu átta sjóbleikjur af 3 svæði og voru tvær af þeim nokkuð vænar, 53 og 52 sm. Einungis er leyfilegt að taka fisk á svæði 3 en sleppa þarf öllu á 5 svæði. Þar voru bleikjurnar í jafnri stærð, flestar í kringum 45 cm.     

Flugurnar sem voru að gefa þeim félögum þennan dag voru helst Stirða, Hrafna, Krókurinn og San Juan blóðormur. “Þetta voru feitar og pattaralegar sjóbleikjur og þessi sem ég tók með heim var eldrauð á holdið og alveg herramannsmatur”, sagði Guðmundur brosandi.  

Ljósmyndir/Högni Harðarson

Samantekt unnin af Ragnari H. Ragnarssyni og Högna Harðarsyni

Svarfaðardalsá