Hamingjudagar

Í bók sinni Hamingjudagar lýsir einn vinsælasti rithöfundur okkar veiðimanna, Björn J. Blöndal, því hversu dýrmætt það er að eiga eftirminnilegar fjölskyldustundir við árbakkann og hvernig veiðidellan virðist oft erfast mann fram af manni. Gefum Birni orðið: 

“Við göngum fjögur hægt í átt að ánni. Við hjónin og tveir drengir okkar. Mjúkar reyrstengurnar svigna á öxlunum, og drengirnir hjala lágum rómi.   Við skiptum liði, þegar að ánni kemur. Kona mín og eldri drengurinn veiða í efri hlutanum. Þau gæta hvort að öðru og hjálpa, ef með þarf. Við Nonni höldum niður með ánni. Þar vorum við líka í gær. Við gætum að blómunum, sem vaxa við götuna, og gefum gaum að skordýrum, sem skríða í mjúkum mosa. Mörg þeirra eru vafalaust á veiðum. Við sjáum kónguló vitja um netið sitt. Kóngulóin beinir orðum okkar að netjaveiði. Okkur kemur saman um, að of mikið sé veitt af laxi í net í Borgarfirði, þó sé mest um vert að hlýða lögum landsins. Það eigi að vera fyrsta boðorð allra veiðimanna. Áður en við komum að veiðistöðvunum, kenni ég Nonna grínbæn veiðimannanna ensku. Mannanna, sem kenndu Íslendingum fyrst stangarveiði. Nú læra Íslendingar af Íslendingum. Bænin er svona: 

Lord suffer me to catch a fish  so large, that even I,  when talking of it afterwards  may have no cause to lie”. 

Björn J. Blöndal. HamingjudagarÚr dagbókum veiðimanns. Reykjavík: Prentsmiðja Austurlands H/F, 1950 bls. 155 og 56.