Dolly Varden?

Flest vitum við að sú bleikja sem lifir í ám og vötnum á Íslandi tilheyrir Atlantshafs- stofninum (Salvelinus alpinus L). Sú bleikjutegund sem líkist henni mest er Kyrrahafsbleikja (Salvelinus malma L) en hún þekkist á því að höfuð hennar er smærra og munnvikið styttra en á Atlantshafsbleikjunni. En hver skyldi vera ástæða þess að Kyrrahafsbleikjan er ávallt kölluð Dolly Varden? Hér á eftir verða því gerð skil. 

Í skáldsögunni Barnaby Rudge eftir Charles Dickens (útg. 1839) er sögupersóna sem ber nafnið Dolly Varden. Þetta er myndarleg stúlka, dóttir þeirra Gabriels og Mörtu Varden. Hún er vön að klæðast kjól með björtu blómamynstri, í litum sem þekkjast hjá bleikjutegundum. Nafnið Dolly Varden festist síðan við þessa gerð kjóla og einnig við hatta sem jafnan voru notaðir með kjólunum. Mest var notkun þeirra um 1870 og konur klæddust jafnvel slíkum kjólum allt fram til 1930. Heimildir: Dolly Varden (costume); en.wikipedia.org / Characters in Barndaby Rudge; Charles Dickens info

Nokkrum áratugum seinna á að hafa átt sér stað atburðarás sem leiddi til hinnar óvæntu nafngiftar á Kyrrahafsbleikju. Sennilega er okkur óhætt að trúa henni!      

Í Norður-Kaliforníu 1872:  Hópur vel klæddra herramanna standa þétt saman á landareign veiðihúss sem kúrir á bökkum Sacramentoárinnar. Þeir eru nýkomnir, sigursælir úr enn einni árangursríkri ferð til McCloud, sem er óspillt hliðará Sacramentoárinnar, og hafa komið til baka með aflann úr ferðinni. Þeir taka fiskinn varlega úr veiðikörfunum og raða honum snyrtilega á lyngið undir furunum.      

Á meðan þeir púa vindla og spjalla sín á milli nálgast þá ung stúlka frá aðalhúsinu. Hún klæðist stórkostlegum kjól; úr fíngerðu efni, ríkulega skreyttu blómum í töfrandi litum. Þetta er frænka eiganda veiðihússins og hún hefur oft áður séð alls konar fiska líka þeim sem nú liggja fyrir framan hana. Þarna voru hinir þekktu regnbogasilungar og svo nokkrir fiskar með dökka húð og ljósa bletti, sem einfaldlega kölluðust “Calicos”. Loks spyr einn herramannana ungu stúlkuna, dálítið smjaðurslega, spurningar varðandi fiskinn með blettina: 

“Hvað segirðu, hvað eigum við að kalla þessa fínu silunga?”

Svar hennar er einfalt: Dolly Varden

Heimild: Epic Angling & Adventure, Seven Species Series: Dolly Varden, Part Four: Dolly Varden, “A Quick Rewind”