Stirða veiðir allt

Flugan Stirða hefur vakið mikla eftirtekt í áraraðir. Það eru fáar flugur sem hafa þann eiginleika að veiða allar tegundir ferskvatnsfiska. Það er Dalvíkingurinn Marínó H. Svavarsson (Matti Guss) sem er höfundur Stirðu og hefur hnýtt hana fyrir verslanir og velunnendur til fjölda ára.   

Lax sem Matti fékk úr Fljótaá á Bismo Stirðu

Það voru fyrst þær skærlituðu sem vöktu áhuga stangveiðimanna; sú appelsínugula, bleika og rauða. Þær hafa verið ómótstæðilegar í sjóbleikjuveiði, vatnaveiði og reynast einnig vel í sjóbirtingi. Sú svarta hefur einnig verið ótrúlega gjöful, en hana má nota á allar tegundir ferskvatnsfiska og vert að geta þess að allmargir laxar hafa fallið fyrir henni. Aðrir litir; hvítur, brúnn og grænn gefa mönnum fiska við sérstakar aðstæður. 

Dagsverk Matta og uppáhalds bollinn hans

Nú upp á síðkastið hefur Matti verið að bæta í flóruna Stirðum sem hann vill meina að séu gjöfular með ólíkindum, eitthvað svipað og þekkist með Frances og Sunray Shadow í laxveiði eða Pheasant Tail í silungnum. Þær reynast vel við veiðar á öllum ferskvatnsfiskum og þykir það merkilegt hversu góðar þær eru í laxveiði. Enn eru þetta hálfgerð “leynivopn” sem eru í þróun, annars vegar Bismo Stirða og hins vegar Psycho Stirða. Matti segir að Stirða líkist einna helst dauðu eða særðu hornsíli, en þær hreyfa sig þannig í vatninu. Sjálfur kastar hann þeim gjarnan andstreymis, sem gefur þeim þennan eiginleika.  

Ljósmyndir/Matti Guss – Birtar með leyfi höfundar