Veiðarfæri fyrr á öldum

Gaman er að rýna í gömul rit um þau veiðarfæri sem notuð voru um og eftir miðja síðustu öld. Hér á eftir fer samantekt um búnað og flugur sem notaðar voru í silungsveiði, unnin upp úr skrifum Ingólfs Einarssonar í Veiðimanninum 1940. “Í sjóbleikjuveiði þurfti góða veiðistöng, sem var að lengd 9-9.6 fet eða jafnvel 10 fet, með samsvarandi línu og hjóli. Síðan þurfti flugutaum eð flugukast (Fly Cast) eins og veiðimenn voru oft vanir að kalla það. Sverleikinn sem almennt var notaður nefndist 0x og 1x sem var sverara girni og notað í straumvatni. Í straumlausu vatni var notaður taumur sem var 2x eða 3x. Flugutaumur var ofrt bleyttur upp, í minnst 20 míútu í köldu vatni, áður en hann var notaður. Best var að láta hann í girnisbox um leið og lagt var af stað í veiðiferðina, eða þá að vefja hann upp í deiga tusku sem látin var í blikkdós. Þanni var hægt að nota hann strax þegar komið var á veiðistað. Þegar heim var komið var flugutaumurinn tekinn úr girnisboxinu eða blikkdósinni og látinn þorna. Aldrei mátti geyma flugutauminn í girnisboxinu með áhnýttum flugum, því það eyðilagði bæði flugutauminn og fluguna “Í straumvatni voru oftast notaðar flugustærðir nr. 8-12 en stærðin var oft valin eftir birtunni og hve mikill straumurinn var. Hér að eftir verða talin upp nokkur flugunofn sem reyndust ágætlega í straumvatni: Alexandra, Peter Ross, Butcher, Bloody Butcher, Grouse & Claret, Mallard & Claret, Black Doctor, Silver Doctor, Wilkinson og Blue Charm. Þegar fiskað var í straumlausu vatni var oft venjulegt að hafa minnst tvær en oftast þrjár flugur á sama flugutaumnum og voru það stærðirnar nr. 10, 11, 12, 13 og 14. Flugunum var þá raðað þannig á tauminn, að minnsta flugan var látin vera á endanum en stærri flugurnar ofar á taumnum” (Ingólfur Einarsson (1940) “Nokkur orð um silungsveiði” úr Veiðimanninum, 2 hefti, Ísafoldarprentsmiðja H.F. bls. 59 & 60).