Mér bauðst að fara í Langá með skömmum fyrirvara í vikunni. Tvær vaktir í laxlausri á. Ég var til í það. Það var orðið langt síðan ég fór á fjallið í Langá sem er einn mínum uppáhaldsstöðum í öllum heiminum. Fjallið var frísvæði sem gladdi mig mikið.
Ég sagði við makkerinn, Davíð Lúther Sigurðarson, að mig langaði að prufa nýja taktík sem ég heyrði um í sumar. Ekki þetta. Byrja á smáu og enda á stóru, heldur: byrja á smáu og enda á smáu. Hann var til í það.
Við byrjuðum í Hvítsstaðahyljunum (alveg við veiðihúsið) og sá efri var – okkur að óvörum – pakkaður af fiski, uppúr og niðrúr. Við tókum skæri, blað, stein um það hvor ætti að byrja og ég vann. Setti minnstu fluguna sem ég fann í boxunum undir. Teal and Black míkró míkró. Hahahæ, nú minnkapels ég fæ, söng ég í huganum þegar ég byrjaði að kasta á sístökkvandi laxatorfuna. Það hafði eitthvað kroppast upp dagana á undan þegar einhverjir sérfæðingar, kallaðir Minkurinn og Refurinn mokuðu honum upp á smáflugur.
Núnú, ég kasta og kasta og er svo spenntur að allt fer í vindhnúta og vitleysu. Engin taka. Davíð kemur á eftir mér með míkró eitthvað gult og er svo spenntur að allt fer í vindhnúta og vitleysu. Svo ég aftur og kasta aðeins betur og er með míkró Haug. Ég segi við Davíð: Hann tekur oftast við klettinn þarna á móti.
Og BÆNG! Og BINGÓ!
HANN ER Á!
Veiðar · Lesa meira