Laxá í Leirársveit, sama veiði og allt síðasta sumar

„Við fórum saman fjórar vinkonur heldur óvænt, í Laxá í Leirársveit, fyrir fáum dögum,“ segir Anna Lea Friðriksdóttir í samtali. „Við vorum allar að koma þarna í fyrsta skipti og stukkum á tilboð sem var auglýst vegna þess að hollið var laust. Það var mikið vatn í ánni sérstaklega í upphafi en svo sjatnaði í henni eftir sem á leið og þá var fiskurinn spenntari fyrir smáu flugunum. Það komu átta laxar á land á þessar tvær stangir og við misstum sennilega jafnmarga en tökur voru fremur grunnar. Sá stærsti var 80 cm hrygna sem veiddist í veiðistað 32 og mikið var af fiski um alla á en takan var aðeins treg þótt fiskurinn sýndi sig vel,“ útskýrir Anna Lea. „Það spilaði kannski líka aðeins inn í að við vorum allar nýgræðingar á þessum slóðum. Áin er æðisleg en mætti vera betur merkt fyrir þá sem ekki eru kunnugir staðháttum fannst okkur. Okkur langar öllum til að koma þarna aftur og þá vonandi fer minni tími í að finna réttu afleggjarana fyrir þessa góðu veiðistaði.“

Laxá í Leirársveit hefur gefið 500 laxa en gaf allt sumarið í fyrra 516.

Sif Jóhannsdóttir með fallegan, nýgenginn lax úr veiðistað 19

Veiðar · Lesa meira

Hólaá – Austurey